Ég er svo lánsöm að vera umkringd frábæru fólki. Við hjónin erum í borðspilaklúbbi þar sem við reynum að hitta hópinn reglulega og spila borðspil ýmiskonar. Er þetta hin besta skemmtun og bætir rökhugsun manns í hinu daglega lífi svo ég verð að mæla með þessu við alla.

Það var eitt kvöldið sem við buðum vinum heim og áður en spilið byrjaði sá einn vinur okkar kertastjaka í vinnslu sem varpar mynd sinni upp á vegg. Hann hrósaði stjakanum og sagði síðan í framhjá hlaupi “hugsaðu þér hvað þetta væri svalt með Batman merkið”. Nú veit ég ekki hvort þetta var plott hjá honum til að láta mig vera annars hugar við spilamennskuna svo hann gæti unnið, en sem betur fer lét ég hann ekki slá mig út af laginu og vann í þetta skiptið (Firefly: The game fyrir áhugasama).

Hugmyndinni var engu að síður sáð. Það var því á sunnudegi sem ég settist niður við tölvuna og byrjaði að vinna við Batman kertastjaka. Ég leitaðist við að hafa hann stílhreinan og leyfa Batman merkinu að njóta sín. Eftir nokkrar prufur varð ég sátt með hvernig merkið varpast upp á vegginn og því kynni ég með ánægju hinn nýja Batman kerstastjaka. Njótið vel!

IMG_9317IMG_9305