Náttúran veitir mér innblástur á hverjum degi og er ég þakklát fyrir að geta notið hennar á nánast hverjum degi. Útsýnið eitt úr húsinu okkar er magnað og skiptir ekki máli út um hvaða glugga maður lítur, fegurðin er alls staðar.

IMG_9389Þegar náttúran blandast síðan saman við söng 4 ára dóttur minnar verður útkoman yfirleitt algjörlega frábær. Dóttir mín er mjög söngelsk og syngur mikið á meðan hún er að dunda sér og var það einn daginn að hún söng vorvísuna Sá ég spóa suður í flóa að hugmyndinni laust niður í huga mínum. Spói og Lóa væru fullkomin í hringóróafjölskylduna með Þrestinum og Kríunni.

IMG_9373Því var ekki um annað að ræða en að setjast niður við teikniborðið og reyna að fanga þessa skemmtilegu fugla í svarthvítri mynd svo þeir myndu njóta sín sem best sem óróar úr 3 mm plexígleri. Eftir heilmikið riss fæddust þeir og gleður það mig mikið að segja frá því að þeir eru nú þegar flognir af stað á ný heimili. Ég vona að þið eigið eftir að njóta eins vel og ég.