Það fór væntanlega ekki fram hjá neinum að ný Star Wars mynd var frumsýnd rétt fyrir jólin. Ég viðurkenni fúslega að ég var búin að bíða spennt og þegar ég sá að hún var frumsýnd á afmælisdaginn minn ákvað ég að það væru örlögin að ég færi á hana í bíó og fengi mér stóra popp og gos með og njóta hverrar sekúndu.

Að sjálfsögðu tókum við hjónin Star Wars maraþon á undan þessari til að hafa atburðarásina sem ferskasta í minni og má segja að ég hafi verið farin að dreyma myndirnar og stórskemmtilegar hliðarsögur sem gerast hvergi nema í draumheimum með þessum frábæru sögupersónum (þó ég væri svo sannarlega til í að sjá sum ævintýrin sem mig dreymdi á hvíta tjaldinu en það er allt önnur saga).

Þar sem ég var með söguna á heilanum er kannski ekki skrítið að fyllast innblæstri og allt í einu datt mér í hug að það væri nú það svalasta að geta skreytt jólatréið með þessum frábæru söguhetjum. Þá var ekki aftur snúið og útbjó ég óróa sem voru tilvaldir á jólatréið.

Package1

Eftir jólin ákvað ég að deila þessum óróum með umheiminum og komu viðbrögðin mér vægast sagt í opna skjöldu, þeir gjörsamlega flugu út til nýrra eigenda. Mikið sem það gladdi nördahjartað mitt! Það besta var samt þegar ég fékk þá spurningu hvort ég gæti gert heils árs óróa svo hægt væri að njóta allt árið – ekki bara rétt á meðan jólatréið stæði uppi.

Í stuttu máli þá henti ég ölllu frá mér og sökkti mér í hugmyndavinnu og eftir talsvert riss við teikniborðið fæddist Death Star óróinn, þar sem karakterarnir níu hengu á disk með Death Star hangandi fyrir miðju.

Death_Star_package

May the force be with you!